8 áhrifarík skref sem þú þarft að hafa í huga þegar þú tekur próf.
Nov 14, 2015Það er einn af fylgifiskum þess að vera í námi að yfir önnina og í lok annar þarftu að taka próf og sýna fram á kunnáttu og þekkingu þína í efni skólaannar. Þetta fer mismunandi vel hjá sumum en það er margt sem getur hjálpað þér í sjálfu prófinu.
Auðvitað hefur undirbúningur yfir önnina mjög mikið að segja, hve vel þú kannt þitt efni eftir lestur, verkefni, skyndipróf og annað þess háttar. Það getur þó komið fyrir þá bestu að lenda í vandræðum í námi og oft er það þeirra eigin vantrú á getu sína sem hefur þar áhrif. Telja sig ekki nægilega vel undirbúna og eru þannig að lenda í vandræðum þó þeir kunni efnið. Hér eru því 8 skref sem að þú þarft að hafa í huga þegar þú ert kominn í próf.
Til að taka próf með góðum árangri þarf margt að koma til:
Það sem mestu máli skiptir auðvitað til að ná góðum árangri á prófi er að kunna efnið vel. En fleira þarf til.
Góður frágangur og skipulögð svör
Góðan frágang og vel skipulögð svör. Leggðu þig fram um að skrifa læsilega skrift og að hafa svörin vel skipulögð - alltaf!
Hafðu rækilega hugfast að vægi góðs frágangs og að skipuleggja svör vandlega gildir alltaf mikið á prófi. Fallegur og greinargóður frágangur ásamt vel skipulögðum svörum getur vegið allt að 25% af einkunn, jafnvel þó kennarinn hafi áður fullyrt að þessi atriði skiptu ekki máli.
Hugarfar í prófi
Þegar þú ert kominn í próf skaltu draga djúpt andann og reyna að slaka á! Að vera vel afslappaður og með jákvætt hugarfar skiptir miklu máli til að ná hámarks árangri.
8 skref að góðum árangri í prófi
1. Lestu prófið vandlega yfir. Athugaðu vel öll fyrirmæli og leiðbeiningar. Lestu allar spurningar vel. Gættu þess að verða ekki svartsýnn þó verkefnin sýnist erfið í fyrstu.
2. Áætlaðu tíma fyrir hvert atriði á prófinu. Skráðu tímamörkin á prófblaðið eða rissblað. Áætlaðu tímamörk fyrir hvert eftirtalinna atriða:
- a)Yfirlestur og undirbúning spurninga, líkt og talað er um í skrefi 3 að neðan.
- b)Að svara hverri spurningu fyrir sig, líkt og talað er um í skrefi 4 að neðan.
- c)Yfirlestur á svörunum í lokin, líkt og talað er um í skrefi 5 að neðan.
3. Farðu yfir hverja spurningu af annarri og skrifaðu niður lykilorð yfir allt sem þér dettur í hug að nota í svar þitt við spurningunum. Röð atriða skiptir ekki máli. En það skiptir miklu máli að nýta þau orð sem koma strax upp í hugann. Þar er hugurinn að gefa þér vísbendingar sem jafnvel koma ekki aftur. Nýttu því tækifærið og punktaðu niður nokkur lykilorð.
Spurðu kennarann álits og ráða! Nemendur hegða sér mjög misjafnlega í prófum. Sumir eru mjög naskir við að „veiða“ rétt svör út úr kennaranum sínum, eða a.m.k. mikilvæga vísbendingu um hvað muni vera rétt svar, á meðan aðrir eru svo ragir við að spyrja að þeir kjósa fremur að taka þá áhættu að þeir misskilji spurninguna. Ekki er á því nokkur vafi að þeir hagnast sem spyrja. Mundu það og spurðu kennarann alltaf þegar þig vantar rétta svarið. Í versta falli svarar kennarinn þér engu. Þú getur líka treyst því að hann dregur aldrei af þér í einkunn fyrir að spyrja, jafnvel þó svo fari að hann slysist til að gefa þér mikilvæga vísbendingu eða jafnvel segja þér það sem máli skiptir í svarinu!
4. Snúðu þér að því að svara hverri spurningu fyrir sig. Gerðu þá eftirfarandi:
- Lestu spurninguna enn einu sinni vel yfir og vertu viss um að þú hafir skilið hana rétt.
- Lestu lykilorðin yfir sem þú settir á blað og reyndu að bæta fleiri atriðum við.
- Númeraðu lykilorðin í þeirri röð sem þú ætlar að nota þau í svari þínu. Þannig gerir þú þér kleift að rökstyðja mál þitt í þeirri röð sem sýnir sem bestu heildarmynd – og gefur kennara til kynna að þú hafir yfirgripsmikla þekkingu á efninu.
- Byrjaðu og endaðu svar þitt þannig að jákvæð áhrif hafi. T.d. er gott að hafa kjarna spurningarinnar í fyrstu málsgrein. Dæmi: Spurning: Hver var Egill Skallagrímsson? Svar: Egill Skallagrímsson var....
- Endaðu síðan svar þitt með einhvers konar niðurstöðu eða samantekt og reyndu að forðast tvíræðar merkingar, nema þú setjir þær fram viljandi. Slíkt getur þó verið farsælt, t.d. ef tvö atriði koma til greina sem rétt svar, en þú veist ekki hvort er rétt. Við slíkar aðstæður getur verið heppilegt að orða svarið á óljósan máta þannig að kennarinn getur, ef velvild er fyrir hendi, gefið rétt fyrir. Sumir nemendur geta þannig verið ótrúlega lagnir við að snúa sig út úr vandamálum þegar mikið liggur við! Ef þú hins vegar veist rétt svar við spurningu skaltu gæta þess sérstaklega að orða svar þitt á skýran hátt.
- Númeraðu eða auðkenndu svör þín á sama hátt og á prófblaðinu. Ekki merkja liði í svörunum 5a), 5b) o.s.frv. ef spurningarnar eru tilgreindar 5.1. og 5.2. Slíkt getur valdið misskilningi.
- Varaðu þig á að falla ekki á tíma við að svara einhverri ákveðinni spurningu. Ef sá tími er liðinn sem þú ætlaðir spurningunni sem þú ert að svara skaltu snúa þér strax að næstu spurningu. Ljúktu tímafreku spurningunni í lokin, hafir þú þá tíma. Hafðu í huga að ef þú heldur áfram að svara ertu bara að stela tíma frá sjálfum þér.
5. Lestu svörin vandlega yfir í lokin. Gættu að stafsetningar- og merkingarvillum.
6. Ljúktu við að svara þeim spurningum sem þú náðir ekki að ljúka áður.
7. ALDREI - að skilja eftir spurningu þar sem þú hefur ekki einu sinni reynt að svara spurningu. Reyndu - alltaf - við allar spurningar. Jafnvel þó þú hafir ekki hugmynd um hvað þú eigir að segja þar. Komdu inn á allt það sem þér dettur í hug – jafnvel þó þú náir ekki að klára að svara. Ef ekkert hefur verið gert – getur kennari aldrei gefið þér annað en núll fyrir það svar. Ef þú ratar á einhverja rétta þætti – þá getur verið að kennari gefi þér 10-30% af réttu svari og er það alltaf að telja í heildareinkunnagjöf á prófinu. Ekki koma kennara í þá stöðu að geta ekki gefið þér neitt fyrir viðleitni þína við að svara spurningunni.
8. Þegar þú gengur út eftir próf – þá skaltu alls ekki byrja að hugsa um hvað þú hefðir getað gert betur í prófinu sem þú varst að klára. Það er búið og gert! Næsta verkefni – er næsta próf! Ekki leyfa þér að slaka á af því að þér gekk svo vel eða að stressast upp af því að þér gekk svo illa í prófinu. Þetta próf er frá og þú gerðir þitt besta. Næsta próf á að eiga hug þinn allan núna!
Í lokin...
Ekki taka því persónulega ef það kemur fyrir að þú fallir á prófi. Því líkt og ég hef nefnt að ofan er mjög margt að spila þarna inn í og góður árangur í prófum hefur oft ekkert með gáfur eða kunnáttu að gera heldur eingöngu hve góður þú varst í að taka próf þennan daginn. Auðvitað er góður undirbúningur að hjálpa en jafnvel þó þú hafir lesið og lært allt sem þú áttir að gera. Þá eru margir þættir sem geta gert það að verkum að þú hafir ekki náð að sýna þína réttu kunnáttu í prófinu þennan daginn.
Nýr dagur kemur, með ný tækifæri og ný próf. Lærðu af reynslunni, skoðaðu prófin, sjáðu hvar þú varst veikur fyrir og mættu vel undirbúinn í upptökupróf ef það er fyrir hendi eða næstu önn ef þú þarft að taka áfangann aftur.
Gangi þér vel í prófunum og njóttu síðan afslöppunar í fríinu sem er framundan.
Jón Vigfús Bjarnason
Skólastjóri Hraðlestrarskólans
E.S.
Á námstækninámskeiðinu - Námsbókin og námsvenjur fer ég einmitt mikið dýpra í öll þessi atriði og sýni nemendum hve auðvelt það getur verið að tækla prófin ef þú hefur öll skrefin. - Námskeiðið er 4 vikna fjarnámskeið og er allt tekið í gegnum netið!
E.E.S.
Ertu kannski í miklum vandræðum núna? Ertu langt á eftir í prófaundirbúningi, að klára verkefni eða á eftir í námslestrinum? Þá er þessi 50 bls. Kindle bók - það sem þú þarft á að halda núna! - Allar upplýsingar á www.h.is/yfirsyn